Erlent

Fyrsta geimhótelið opnar 2012

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Listamenn hafa séð geimhótel fyrir sér með ýmsum hætti.
Listamenn hafa séð geimhótel fyrir sér með ýmsum hætti.

Spænskt fyrirtæki stefnir á að opna fyrsta geimhótelið árið 2012. Það heitir Galactic Suite Space Resort og nóttin kostar milljón evrur, litlar 184 milljónir króna. Þó er kannski hæpið að tala um ákveðið verð miðað við nótt á þessu sérstaka hóteli þar sem það þýtur með 30.000 kílómetra hraða á klukkustund í 450 kílómetra hæð eftir sporbaug sínum og fer heilan hring um jörðina á 80 mínútum.

Væntanlegir gestir munu því sjá sólarupprás 15 sinnum á dag sem vafalítið myndi rugla flesta í ríminu. Í verðinu fyrir gistinguna er innifalin átta vikna þjálfunardvöl á hitabeltiseyju því fólk skreppur ekki út í geiminn og húrrar þar marga hringi kringum jörðina án þess að hafa æft sig töluvert fyrir þá miklu lífsreynslu.

Xavier Claramunt, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir mikla framtíð felast í geimhótelbransanum og hefur samið við Virgin Galactic, fyrirtæki breska auðjöfursins Richards Branson, um að annast ferðir með hótelgesti upp og niður. Fargjaldið er ekki nema 200.000 dollarar, eða tæpar 25 milljónir króna, sem er dropi í hafið í samanburði við gistinguna sjálfa.

Hótelið mun til að byrja með aðeins rúma sex manns, fjóra gesti og tvo geimfara sem stjórna ferðinni, og miðað við fyrstu tölur verður nóg að gera þar sem 200 manns hafa látið í ljós áhuga á gistingu og 43 þegar pantað herbergi ef hægt er að tala um herbergi í þessu fyrirbæri sem væntanlega tekur á móti fyrstu gestum sínum árið 2012 ef allt gengur að óskum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×