Erlent

Siglir undir brú sem er sjö metrum of lág

Óli Tynes skrifar
Oasis of The Seas í reynslusiglingu.
Oasis of The Seas í reynslusiglingu.

Það fylgjast sjálfsagt margir Danir með þegar risaskipið Oasis of The Seas reynir að sigla á fullri ferð undir Stórabeltisbrúna. Skipið er sjö metrum of hátt.

Oasis var smíðað í Finnlandi og til þess að komast til heimahafnar í Flórída verður það að fara um Stórabelti.

Vandræðin með brúna voru leyst með því að skorsteinarnir eru sundurdraganlegir. Það er hægt að hækka þá og lækka. Búist er við að þetta verði í eina skiptið á ferli skipsins sem skorsteinarnir verða lækkaðir, en búnaðurinn kostaði um þrjúhundruð milljónir íslenskra króna.

Ástæðan fyrir því að siglt verður undir brúna á fullri ferð er sú að við það leggst skipið dýpra í sjóinn.

Það er náttúrlega valinn siglingatími þegar er lágsjávað. Gangi þessir þrír þættir upp á að vera eins og hálfs metra bil milli skorsteinanna og brúargólfsins.

Maður verður bara að vona að þetta sé allt rétt reiknað. Annars má búast við braki og brestum. Þótt menn séu nokkuð vissir um að þetta gangi allt vel verður nú samt lokað fyrir umferð yfir brúna á meðan.

Allt í tengslum við þetta skip er risavaxið enda er það stærsta skemmtiferðaskip heims. Það er 225 þúsund brúttótonn og 140 þúsund hestafla vélarnar koma því upp í 45 kílómetra hraða.

Káetur eru fyrir 5.400 farþega og 2.165 eru í áhöfninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×