Innlent

Rökræður og þolinmæði sterkustu vopn lögreglu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Mynd/Vilhelm

Mótmæli ársins 2008 eru fyrirferðarmikil í nýrri ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í henni er talað um þær breytingar sem urðu á íslensku samfélagi á haustmánuðum 2008 og fjallað um mótmæli bæði vörubílstjóra og almennings í miðbæ Reykjavíkur. Í skýrslunni segir sjaldan hafa reynt jafn mikið á lögregluna og á síðasta ári.

Í ávarpi Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra, kemur fram að leiðarljós lögreglunnar hafi verið að haga inngripum lögreglu þannig að þau sköpuðu ekki meiri vanda en þann sem leysa þurfti í hvert sinn.

Sterkustu vopn lögreglunnar hafi reynst rökræður og þolinmæði, sem endranær, en Stefán segir þá aðferðafræði hafa gengið upp.

Í skýrslunni er jafnframt fjallað um markmiðasetningu lögreglunnar. Meðal þess sem stóð til á árinu var að fækka glæpum um fimm prósent miðað við meðaltal síðustu ára. Það hafi ekki tekist, en hins vegar hafi slysum á vegfarendum fækkað líkt og að var stefnt. Þá er því trausti sem lögreglan nýtur fagnað.

Ofbeldisbrot á árinu voru 770, þar af hundrað alvarleg. Árásir á lögreglu voru skráðar um sextíu talsins. Í skýrslunni er sérstaklega tiltekið hversu útbreidd notkun barefla virðist vera.

Um 170 mál komu til rannsóknar kynferðisbrotadeildar. Þar af voru brot gegn börnum algengust, en þau voru um fimmtíu talsins. Barnaklámsmál voru 24, en sum þeirra voru afar umfangsmikil og töldu yfir tíu þúsund ósæmilegar myndir af börnum.

Þá er sér kapítúli um umfangsmikil fíkniefnamál og eru þar fyrirferðamest húsbílasmyglið á Seyðisfirði, auk aðgerðar Einstein - fíkniefnaverksmiðjunnar sem upprætt var í Hafnarfirði.

Í rekstarhluta skýrslunnar kemur fram að rekstur embættisins hafi verið afar erfiður vegna hækkana á nær öllum sviðum sem snúa að almennum rekstri, sem hafi verið langt umfram viðbótarfjárveitingar. Stærstur hluti rekstrarkostnaðar embættisins er launakostnaður. Rekstarhalli embættisins á árinu var tæpar 98 milljónir.

Ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu má í heild sinni nálgast hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×