„Þetta eru sögur og lífið og tilveruna. Flestar snúast um einhverskonar hrun og átök í mannlegri tilveru og uppbygginguna. Ein sagan fjallar svo um það að konur séu miklu betri en karlmenn í að reka íþróttafélög. Þetta er allt skáldskapur. Það eru engar fyrirmyndir.“
Hér talar Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi. Smásagnasafn hans, Ný von að morgni, er væntanleg á næstunni. „Þetta er það fyrsta sem kemur út eftir mig fyrir utan meistaraprófsritgerðina sem ég gaf út sjálfur í 50 eintökum í fyrra. Allar þessar sögur hafa þó birst áður í Bæjarins besta, héraðsblaðinu á Ísafirði, en hann Hallgrímur Sveinsson hjá Vestfirska forlaginu fékk þá hugmynd að gefa þetta út í bók. Ég tók ár í að hugsa mig um og þetta er niðurstaðan.“
Ólafur segist gera svolítið af því að lesa smásögur og nefnir Þóri Baldursson sem höfund sem hann hrífist að. Þar sem Ólafur er þekktasti Rolling Stones-aðdáandi landsins liggur auðvitað beinast við að spyrja hann hvort það sé eitthvað rokk í bókinni. „Tja, ég kann ágætlega við sinfóníur en kannski eru smásögur eins og dægurlög, þær ná betur til fólks. Þú veist svo hvað Keith Richards sagði þegar hann var spurður hvernig hann semdi lög? Hann sagði að hann semdi engin lög heldur kæmu lögin bara til hans. Þannig er það líka með mig og smásögurnar.“
En ef bókin þín væri Stones-plata - hvaða plata væri hún þá?
„Hmm... Let it bleed líklega, frekar en Sticky Fingers. En annars var ég nú ekki búinn undir þessa spurningu!“ - drg
Sýslumaður skrifar smásögur
