Erlent

Fimm manns í ferðabann

Leiðtogi í vettvangsferð Kim Jong Il skoðar verksmiðju í höfuðborginni Pjongjang. Nordicphotos/AFP
Leiðtogi í vettvangsferð Kim Jong Il skoðar verksmiðju í höfuðborginni Pjongjang. Nordicphotos/AFP

Fimm einstaklingar og fimm fyrirtæki verða sett í ferðabann og eignir þeirra erlendis verða frystar, samkvæmt ákvörðun nefndar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að leggja nýjar refsiaðgerðir á Norður-Kóreu.

Einnig verður bannað að útvega Norður-Kóreumönnum tvær tegundir efna, sem notuð eru við framleiðslu sprengiflauga.

Refsiaðgerðirnar eru gerðar að tillögu Bandaríkjanna. Kínverjar, sem eru helstu bandamenn Norður-Kóreu, féllust á tillöguna eins og önnur aðildarríki Öryggis-ráðsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem nafngreindir einstaklingar eru settir á bannlista í tengslum við refsi-aðgerðir gegn Norður-Kóreu.

Refsiaðgerðirnar eru í samræmi við ályktun Öryggisráðsins frá síðasta mánuði, sem samþykkt var í framhaldi af kjarnorkutilraunasprengingu í Norður-Kóreu í maí síðastliðnum.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa ekki gefið upp hvernig þau hyggjast bregðast við þessum refsiaðgerðum. Þau hafa þó hótað hörðum viðbrögðum hersins, „þúsundföldum viðbrögðum“ eins og þau orða það, gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra, telji þau sér ögrað. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×