Innlent

Enn á ný leyna stjórnvöld gögnum um Icesave

Hluti InDefence hópsins
Hluti InDefence hópsins

Þjóðin hefur rétt á að sjá viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþingis Ríkisstjórnin tilkynnti í gær, þann 17. september 2009, að viðbrögð hefðu borist frá Bretum og Hollendingum um þá fyrirvara sem Alþingi gerði við ábyrgð á Icesave skuldbindingunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá InDefence hópnum nú í kvöld.

Þá segir ennfremur að viðbrögðin séu sögð óformleg og séu bundin leynd. Rök fjármálaráðherra fyrir leynd séu fjarstæðukennd, þ.e að hún sé vegna þess að ef „þessar hugmyndir eru ekki grundvöllur frekari vinnu þá hverfi þær og hafa aldrei verið til". InDefence hópurinn lýsir bæði furðu og áhyggjum yfir því að íslensk stjórnvöld geri sig aftur sek um að sveipa viðræður um Icesave málið við Breta og Hollendinga leyndarhjúpi eftir það sem undan er gengið.

„Það skiptir engu máli hvort íslensk, bresk eða hollensk stjórnvöld skilgreini þessi viðbrögð sem óformleg. Ef þau eru rædd í íslenskum þingnefndum eru þau ekki bara orðin formleg,heldur varða þau beinlínis við þjóðarhag. Þjóðin á skýlausan rétt á að sjá öll viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþingis. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað gerst sek um að leyna þjóðinni mikilvægum upplýsingum um Icesave málið. Skemmst er að minnast þess að ekki einu sinni alþingismenn áttu að fá að sjá Icesave samningana á sínum tíma vegna trúnaðar um efni þeirra. Þá þjónaði leyndin hagsmunum Breta og Hollendinga, enda gjörbreyttust samningarnir Íslendingum í hag í meðförum Alþingis með setningu fyrirvaranna.

Hagsmunum hverra þjónar leyndin nú? Ekki íslensku þjóðarinnar, svo er víst. Því miður glötuðu íslensk stjórnvöld stórum hluta af trausti þjóðarinnar vegna framgöngu þeirra í Icesave málinu. Þetta traust þurfa þau að vinna aftur með góðum og gegnsæjum vinnubrögðum og með því að hafa þjóðina með í ráðum og birta ÖLL gögn vegna Icesave málsins. Feluleikur með gögn elur eingöngu á tortryggni.

InDefence hópurinn krefst þess að öll gögn um viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþingis við ríkisábyrgð á Icesave samningunum verði birt tafarlaust og án undanbragða, til að fullt gagnsæi ríki milli stjórnvalda og þjóðarinnar," segir í yfirlýsingunni.

Ólafur Elíasson einn af forsvarsmönnum InDefence spyr hvort það pukur sem nú sé viðloðandi ríkisstjórnina hafi gefist vel hingað til.

„Nú þegar við höfum ákveðið að greiða skuldbindingar sem er afar ólíklegt að okkur beri lagaleg skyld til þess að gera, höfum við heldur ekki gert kröfu um að skaðinn vegna eignaupptöku Hollendinga og Breta á íslenskum gegnum verði bættur. Ég spyr bara hvort við séum ekki búin að ganga nógu langt til að mæta kröfum þessara þjóða sem virðast ekki svífast einskis til að gæta hagsmuna sinna. Hvers vegna í ósköpunum er þetta mál ekki rætt fyrir opnum tjöldum," segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×