Erlent

Segir Tiger Woods hafa legið hrjótandi á grasflöt

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Nágrannar kylfingsins Tiger Woods segja hann hafa legið hrjótandi á grasflöt þeirra skömmu eftir undarlegan árekstur hans við brunahana og tré í síðustu viku.

Þjóðvegalögreglan í Flórída hefur gert opinberar upptökur af yfirheyrslum vitna að hinu furðulega óhappi Tiger Woods við heimili hans fyrir réttri viku þegar hann ók niður brunahana og endaði á tré. Sænsk eiginkona kylfingsins, Elin Nordegren, braut afturrúðu bifreiðarinnar með golfkylfu og var það til að bjarga honum út úr bílnum samkvæmt hennar eigin framburði.

Ýmislegt hefur þó komið upp á yfirborðið síðustu daga sem gerir atvikið í meira lagi grunsamlegt og ekki bætir framburður nágranna þeirra hjóna, Jarius Adams, úr skák en hann segist hafa vaknað við skarkala og hlaupið út. Hann hafi þá séð hinn heimskunna golfara liggja kylliflatan og skólausan á grasflötinni og hrjóta. Yfir honum stóð eiginkonan og bað Adams um að aðstoða sig. Hann segir Elínu hafa virst rólega, Tiger hafi verið með sprungna vör en ekki aðra sjáanlega áverka.

Í upptökunni, sem CNN hefur undir höndum, hváir lögreglumaðurinn sem annaðist yfirheyrsluna þegar Adams segir Woods hafa hrotið en vitnið situr fast við sinn keip. Woods var fluttur á sjúkrahús skömmu síðar en fljótlega útskrifaður þaðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×