Erlent

Tony Blair flæktur í hneykslið

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Mynd/AP
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er flæktur í kostnaðarhneysklið sem skekið hefur bresk stjórnmál og þjóðlíf Bretlands síðasta rúma mánuðinn. Blair mun hafa fengið endurgreiddan kostnað af þakviðgerðum á heimili sínu skömmu áður en hann lét af embætti.

Kostnaðarhneykslið svokallað hefur kostað breska ráðherra embættið og valdið Brown núverandi forsætisráðherra vandræðum. Lundúnablaðið Telegraph greindi frá því í byrjun maí að þingmenn allra flokka hefðu teygt og togað reglur um endurgreiddan kostnað af opinberu fé. Bresk stjórnvöld birtu í gær lista um endurgreiðslur aftur til ársins 2004.

Þar kemur fram samkvæmt Telegraph að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og nú sérlegur samningamaður kvartettsins svokallaða í friðarumleitununum fyrir botni Miðjarðarhafs, hefði fengið nærri 4500 pund endurgreidd vegna þakviðgerða en það jafngildir nærri milljón íslenskum krónum á gengi Seðlabankans í morgun. Þar fyrir utan hafi hann fengið ríflega fimm þúsund pund eða meira en 1,2 milljónir króna endurgreiddar vegna ýmissa annarra kostnaðarliða fyrir fjárhagsárið 2007 til 2008 þó hann hafi aðeins verið þingmaður og forsætisráðherra í þrjá mánuði á þeim tíma

Fram kemur á vef BBC í dag að margir þingmenn hafi þegar endurgreitt samanlagt nærri hálfa milljón punda vegna endurgreiðslna.

Ekki er vitað hvort Blair ætlar að skila fénu sem hann fékk en samkvæmt Telegraph er hann ekki á flæðiskeri staddur frá því hann hætti í stjórnmálum. Hann hafi unnið sér inn um 16 milljónir punda eða ríflega þrjá milljarða króna á þeim tíma, meðal annars fyrir fyrirlestra og ritstörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×