Innlent

Strandar á ríki og borg

Óvíst er hvenær ráðist verður í tvöföldun Suðurlandsvegar. Lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir með fjármagn en deilur stjórnarflokkanna um vegtolla eru enn óleystar. Þá er óvíst með samgöngumiðstöð í Reykjavík.
fréttablaðið/gva
Óvíst er hvenær ráðist verður í tvöföldun Suðurlandsvegar. Lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir með fjármagn en deilur stjórnarflokkanna um vegtolla eru enn óleystar. Þá er óvíst með samgöngumiðstöð í Reykjavík. fréttablaðið/gva
Lífeyrissjóðirnir eru í startholum með fjármagn fyrir samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni og tvöföldun Suðurlandsvegar. Óleyst mál innan stjórnar og á milli stjórnar og borgar standa í vegi fyrir framkvæmdum.

Í stöðugleikasáttmálanum, sem undirritaður var í júní, er kveðið á um að ríkisstjórnin leiti til lífeyrissjóðanna til fjármögnunar stórframkvæmda. Þegar hefur verið samið um Landspítalann, en það er tugmilljarða króna verkefni.

Óljóst er hvað verður um samgöngumiðstöð, en eins og Fréttablaðið greindi frá hafa Kristján Möller samgönguráðherra og Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, ámálgað aflagningu þess verkefnis og byggingu lítillar flugstöðvar í staðinn. Ekki hefur þó verið látið af hugmyndum um miðstöðina.

Í fjármálaráðuneytinu hefur starfshópur verið í gangi um málið og er enn unnið að því þar. Þá eru í gangi viðræður á milli ríkis og borgar um makaskipti, þar sem lóðin sem nú er ætluð fyrir samgöngumiðstöð þykir ekki lengur henta. Þeim viðræðum er ekki lokið, en Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að málið sé komið á nokkurn rekspöl.

Lífeyrissjóðirnir eru einnig reiðubúnir til að fjármagna tvöföldun Suðurlandsvegar. Óvíst er hvenær af þeirri framkvæmd verður. Þar greinir stjórnarflokkana á um vegtoll, en Vinstri grænir hafa hingað til lagst gegn honum. Á meðan það er óleyst verður ekki af framkvæmdum.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir hugmyndir um þessar framkvæmdir liggja fyrir. „Það eru einkum þessi tvö mál sem hafa verið uppi á borðinu. Þau eru í vinnslu hjá stjórnvöldum. Það stendur ekkert upp á okkur, við erum tilbúnir að setjast niður og semja, en stjórnvöld verða að klára sinn hluta.“

Arnar segir viðskiptamódel fyrir samgöngumiðstöð liggja fyrir. Lífeyrissjóðirnir hafi enga skoðun á staðsetningu hennar, en séu tilbúnir með fjármagn. Þá þurfi ríkisstjórn að taka pólitíska ákvörðun um veggjald.

- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×