Innlent

Skotarnir unnu enn eina samkeppnina

Verði tillagan að veruleika, eins og borgaryfirvöld stefna að, er ljóst að ásýnd Gömlu hafnarinnar mun breytast töluvert.
Verði tillagan að veruleika, eins og borgaryfirvöld stefna að, er ljóst að ásýnd Gömlu hafnarinnar mun breytast töluvert.

Sundlaug verður í miðri innhöfninni, á Ægisgarði, ef ráðist verður í framkvæmdir eftir verðlaunatillögu um skipulag Gömlu hafnarinnar og Örfiriseyjar. Skosk arkitektastofa, Graeme Massie, bar sigur úr býtum í keppninni og fékk í sinn hlut 7,5 milljónir króna.

Athygli vekur að arkitektastofan er sú sama og sigraði hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar og um skipulag miðbæjarins á Akureyri.

Tvær tillögur deildu öðru og þriðja sætinu, annars vegar frá arkitektastofunni SK arkitektum.ehf.

Vinningstillagan gerir einnig ráð fyrir að göng undir hafnarmynnið tengi miðbæinn og höfnina, þjónustuhúsi fyrir ferðafólk og hóteli á nýjum stað í miðbænum, austan Tónlistar- og ráðstefnuhússins og að byggður verði viðlegukantur fyrir skemmtaferðaskip. Slippurinn og olíubirgðastöðin í Örfirisey verði á sínum stað.

Bæði var keppt í flokki hönnuða og fagfólks, sem þeir skosku unnu, og eins í opnum flokki þar sem engin skilyrði voru sett fyrir þátttöku. Í þeim flokki fengu nokkrar hugmyndir verðlaun, meðal annars hugmynd um að skreyta olíutankana í Örfirisey með grafflistaverkum, setja á fót fisk- og kjötmarkað undir þaki á Miðbakka og að koma upp leikvelli með sjóræningjaskipi.

Allar tillögurnar verða til sýnis í Víkinni sjóminjasafni á Grandagarði til 20. desember.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×