Innlent

Tekjur Reykjavíkur 1,5 milljörðum lægri

Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur óskað eftir að greiða 800 milljónir króna í afgjald til eigenda sinna. Það er 1,5 milljörðum lægra en þeir 2,3 milljarðar sem eigendur höfðu óskað eftir, en það er eðlileg afgreiðsla. Orkuveitan fékk sams konar frest á afgreiðslu í fyrra. Borgarstjórn á eftir að taka beiðnina fyrir.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður OR, segir að því miður hafi ekki reynst unnt að greiða hærra afgjald í þessu árferði. Hann bendir á að við 800 milljónirnar bætist 0,25 prósenta gjald vegna ábyrgðar borgarinnar á lánum fyrirtækisins, 4-500 milljónir króna. Þær þarf þó að greiða óháð arðgreiðslum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir að þessi beiðni um frest skýrist meðal annars af tíðindum af fyrirtækinu undanfarnar. Eðlilegt sé að fyrirtæki borgarinnar greiði aukið afgjald, önnur fyrirtæki hafi þegar gert það. Hanna Birna bendir á að ábyrgðargjald OR sé að hækka þannig að samtals greiði fyrirtækið eigendum 1,5 milljarða króna.

„Vegna þessa, og þess að afkoma borgarsjóðs hefur verið betri á seinni hluta árs en áætlað var, á ég ekki von á að þessi ósk muni verða til þess að hagræða þurfi meira en gert var ráð fyrir í áætlunum borgarinnar."

Orkuveitan mun framkvæma fyrir um 18 milljarða króna á næsta ári og segir Guðlaugur það framlag fyrirtækisins til að halda uppi atvinnustigi. Ekki verður þó farið í Hverahlíðarvirkjun fyrr en tryggt er að kaupendur finnist að orkunni og lánsfé hafi verið tryggt. Það þýðir að semja þarf við framleiðanda túrbína, sem þegar hafa verið pantaðar, um frestun. Árlegur kostnaður vegna frestunar getur numið allt að 100 milljónum á hverja túrbínu, en þær eru þrjár.

Umræðum um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem áttu að vera á þriðjudag, hefur verið frestað til fimmtudags. Þar verður tekin afstaða til beiðni Orkuveitunnar. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×