Innlent

Um 100 milljónir gætu sparast

Íslendingar nota lyf við beinþynningu sem mælt er með í um 50 prósentum tilvika. fréttablaðið/vilhelm
Íslendingar nota lyf við beinþynningu sem mælt er með í um 50 prósentum tilvika. fréttablaðið/vilhelm
Mun fleiri Íslendingar nota önnur lyf til meðferðar á beinþynningu en þau sem ódýrust eru og mælt er mest með. Ef notkun þessara lyfja væri með sama hætti á Íslandi og í Noregi og Danmörku væri mögulegt að lækka lyfjakostnað um 100 milljónir króna á ársgrundvelli. Þetta kemur fram í nýútgefnu fréttabréfi lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands.

Í fréttabréfinu kemur fram að kostnaður sjúkratrygginga vegna lyfja til meðferðar við beinþynningu nam 167 milljónum króna árið 2008. Sem fyrsta vali í meðferð við beinþynningu sé mælt með 70 milligrömmum af alendrónsýru einu sinni í viku. Erlendar hagkvæmniúttektir mæli með slíkri meðferð sem bestum kosti til að hámarka ávinning, eða lífsgæðaár, að teknu tilliti til kostnaðar.

Þrátt fyrir það noti mun fleiri Íslendingar önnur lyf en þau sem mest er mælt með. Um 1.300 noti alendrónsýru lyf á meðan um 1.900 séu á öðrum lyfjum í þessum flokki.

Samanburður við notkun þessara lyfja í Noregi og Danmörku leiðir í ljós að Norðmenn nota alendrónsýru í um 96 prósentum tilvika, um 89 prósent í Danmörku en Íslendingar í aðeins um 50 prósentum tilvika.- kg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×