Erlent

Alheimsfaraldi lýst yfir vegna kerfisgalla

Guðjón Helgason. skrifar
Kerfisgalli er ástæðan fyrir því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur orðið að lýsa yfir alheimsfaraldri vegna fremur vægrar flensu. Þetta er mat bandarísks sérfræðings í smitsjúkdómum.

Laurie Garrett er verðlaunuð fyrir vísindafréttaskrif sín en hún líffræðingur, sérmenntuð í veirufræðum. Hún er sérfræðingur í heilbrigðismálum við sérfræðingaráð Concil of Foreign Relations í Bandaríkjunum. Í grein hennar í New York Times í gær segir hún að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi málað sig út í horn með stigskiptu viðvörunarkerfi sínu sem faraldursviðvaranir séu byggðar á.

Ekki sé samræmi milli þess hversu hratt flensur smitist og hversu hættulegar þær séu. Í tilviki svínaflensunnar ráði smithraði því að lýst hafi verið yfir efsta viðvörunarstigi í gær.

Garrett segir svínaflensuna ekki sérlega hættulega, meinvirkni hennar virðist enn sem komið er mun minni en þegar horft sé til venjulegrar, árstíðarbundinnar flensu. Aðeins ríflega hundrað dauðsföll vegna hennar eru staðfest sem mun töluvert minna en ár hvert af völdum venjulegrar flensu.

Garrett vekur athygli á því að erfitt sé að greina hversu hratt flensan hafi smitast þar sem hún greindist fyrst, í Mexíkó þar sem flestir hafi látist, og hve margir hafi í raun veikst. Vel gæti verið að hlutfall látinna sé lágt miðað við hve margir hafi veikst.

Garrett tekur fuglaflensuna sem dæmi en hún dró um sextíu og þrjú prósent smitaðra til dauða en var langt frá því að smitast jafn hratt eða auðveldlega milli fólks og svínaflensan. Í Bandaríkjunum sé stigakerfi eftir því hversu skæð flensur séu fólki og ekki sé farið á fimmta stig í þeim skala nema tvö prósent sýktra láti lífið. Svínaflensan sé langt undir fyrsta stigi þess skala.

Það er mat Garrett að markað þurfi nýja stefnu og þróa sveigjanlegt viðvörunarkerfi sem taki mið af fleiri þáttum en smithraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×