Innlent

Vilja að Guðlaugur endurskoði ákvörun um St. Jósefsspítala

St. Jósefsspítali í Hafnarfirði.
St. Jósefsspítali í Hafnarfirði.

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar heilsugæslustöðvanna í Hafnarfirði og Garðabæ lýsa yfir áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum vegna ákvörðunar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, um stórfelldar breytingar á starfsemi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Starfsfólkið vill að Guðlaugur endurskoði ákvörðun sína.

,,Sú þjónusta sem spítalinn hefur veitt íbúum Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Álftaness í áratugi er ómissandi þáttur í heilbrigðisþjónustu svæðisins. Skjólstæðingar heilsugæslunnar hafa getað sótt þangað sérfræðiþjónustu með skjótum, skilvirkum og hagkvæmum hætti. Það er faglegt álit okkar að styrkja eigi þessa þjónustu frekar en að sundra," segir ályktun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.

Þar segir einnig að á milli hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á heilsugæslu og starfsfólks St. Jósefsspítala sé skilvirkt og gott faglegt samstarf, sem styrki meðal anns heimahjúkrun til þess að hjúkra veikum einstaklingum með flóknar hjúkrunarþarfir óháð aldri.

,,Fyrirhugaðar breytingar á starfsemi St. Jósefsspítala munu ótvírætt hrófla við þeirri samfelldu og skilvirku nærþjónustu sem nú þegar er til staðar fyrir skjólstæðinga heilsugæslunnar. Þeir þurfa því að leita í dýrari úrræði á verkefnahlaðið og yfirfullt hátæknisjúkrahús.

Við hvetjum heilbrigðisráðherra til að endurskoða ákvörðun sína á fyrihugaðri breytingu á starfsemi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Einnig lýsum við yfir vilja til að koma að viðræðum um framtíð heilbrigðismála í okkar byggðarlögum," segir í ályktun starfsfólksins.

Kristín Pálsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur Heilsugæslunnar Sólvangi, Ingibjörg Ásgeirsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur Heilsugæslslunnar Firðinum og Jóna Guðmundsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur Heilsugæslunnar í Garðabæ skrifa undir ályktunina fyrir hönd hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á heilsgæslustöðvunum í Hafnarfirði og Garðabæ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×