Erlent

Mömmu Ágústar úthýst af YouTube

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Leikkonan leitar barnsföður síns með hjálp YouTube.
Leikkonan leitar barnsföður síns með hjálp YouTube.
YouTube myndskeið, þar sem ung dönsk kona auglýsir eftir barnsföður sínum, hefur vakið mikla eftirtekt í Danmörku að undanförnu. Nú hefur danska ferðamálastofan, VisitDenmark, fjarlægt myndskeiðið af YouTube til að bregðast við gagnrýni.

Í myndskeiðinu segist konan, sem er í raun leikkona, hafa hitt manninn þegar hún var að skemmta sér. Þau hafi sofið saman um nóttina heima hjá henni en hann svo verið farinn þegar hún vaknaði daginn eftir. Hún muni hvorki nafnið hans né hvaðan hann er. Hins vegar sé ávöxtur skammvinnra kynna þeirra barn sem hún hefur nefnt Ágúst. Hún telji rétt að barnsfaðirinn viti af syni sínum og hafi því ákveðið að nýta sér upplýsingatæknina til að leita hans.

Það sem áhorfendum er ekki ljóst þegar þeir horfa á YouTube myndskeiðið er að konan er leikkona og að um upplogna sögu er að ræða.

„Mér þykir mjög leitt ef myndin hefur stuðað marga, því það var ekki ætlunin. Hugmyndin var að búa til jákvæða ímynd af Danmörku og skapa umræðu um Danmörk. Við höfum nú fjarlægt myndskeiði af YouTube til þess að stuða ekki fólk," segir Dorte Kiilerich, framkvæmdastjóri hjá VisitDenmark.

„VisitDenmark hefur það hlutverk að markaðssetja Danmörku í útlöndum og það þarf auðvitað að finna sífellt fleiri leiðir til þess. Þegar þetta er gert þarf maður að vera skýr í sinni framsetningu því annars er hætta á að hið gagnstæða gerist. Og það má segja að það hafi gerst hér," segir Georg Sørensen, stjórnarformaður hjá VisitDenmark, í samtali við dönsku fréttastofuna DR. Því hafi myndskeiðið verið tekið út.

Myndskeiðið er þó ekki alveg horfið af YouTube þrátt fyrir að VisitDenmark hafi fjarlægt það. Einn YouTube notandi sem kallar sig Findize hefur nefnilega hlaðið myndskeiðinu þangað aftur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×