Innlent

65 ára gamall maður dæmdur fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær 65 ára gamlan karlmann í fimmtán mánaða fangelsi fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við konu sem ekki gat spornað við þeim sökum andlegra annmarka sinna. Maðurinn hafði ekki samræði við konuna og krafðist því sýknu. Hann sagðist einnig fyrir dómi ekki hafa vitað að konan væri haldin andlegum annmörkum.

Í ákæru segir að maðurinn hafi nuddað kynfæri konunnar í skrifstofuhúsnæði sínu í Reykjavík. Annaðhvort með kynlífstæki og sett tækið inn í leggöng hennar, eða með því að nudda með fingrum og setja fingur inn í leggöng konunnar. Þar segir ennfremur að við kynferðismökin hafi maðurinn notfært sér það að konan gat ekki spornað við þeim sökum andlegra annmarka.

Líkt og fyrr segir neitaði maðurinn sök og byggði meðal annars sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki haft nein kynferðismök við konuna umrætt kvöld né hafi honum verið um það kunnugt að hún væri haldin andlegum annmörkum.

Í skýrslutöku og fyrir dómi sagði konan að maðurinn hefði stungið einhverskonar tæki í klofið á sér og nuddað kynfæri hennar með því. „Lýsti hún því fyrir dóminum að aðdragandi þessa hefði verið sá að ákærði hefði sagst ætla ,,eitthvað að gera fyrir" hana og hún þá háttað sig eins og hún væri „vön að gera fyrir hann".

Framburður mannsins hvað þetta varðar var hinsvegar nokkuð á reiki. Þannig lýsti hann því hjá lögreglu að kærandi hefði afklæðst og boðið honum að hafa mök við sig. Hefði hann í fyrstu verið hálftregur en svo reynt en ,,það bara dugði ekkert". Hins vegar kannaðist hann aðspurður ekkert við græna tækið, en kvaðst hafa reynt að nota græna verju sem hann hefði sett upp á puttann og verið eitthvað að reyna að „hjálpa henni með puttanum". Væri þessi græna verja hugsanlega tækið sem kærandi hefði talað um.

Núningsáverkar voru á kynfærum konunnar við skoðun á neyðarmóttöku. Framburður mannsins þótti ótrúverðugur á meðan framburður konunnar þótt staðfastur og um flest skýr og greinargóður.

„Að þessu virtu telur dómurinn sannað að ákærði hafi í greint sinn nuddað kynfæri kæranda og að það hafi hann gert með fingrum eins og ráða má af framburði hans sjálfs. Hins vegar telst sönnun ekki komin fram um að ákærði hafi beitt kynlífstæki í því skyni eða stungið því eða fingri inn í kynfæri hennar," segir í dómnum.

Maðurinn var því sem fyrr segir dæmdur í 15 mánaða fangelsi auk þess sem honum var gert að greiða sakarkostnað upp á rúmar 1300.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×