Erlent

Segir sjóræningja halda tólf ára stúlku

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Sómalskur sjóræningi.
Sómalskur sjóræningi.

Spænskur skipstjóri, sem sómalskir sjóræningjar slepptu nýlega úr haldi, segist vita til þess að tólf ára gömul úkraínsk stúlka sé í haldi sjóræningjanna.

Ricardo Blach er skipstjóri spænska túnfiskveiðiskipsins Alakrana en áhöfn þess var í haldi sómalskra sjóræningja í sex vikur. Áhöfnin fékk frelsið á þriðjudaginn í síðustu viku og segir Blach frá því í viðtali við spænska blaðið El Mundo að meðal þeirra sem sjóræningjarnir hafi í haldi sé tólf ára stúlka frá Úkraínu. Hún sé dóttir manns sem tilheyri áhöfn úkraínska flutningaskipsins Ariana en sjóræningjarnir hafa haft skipið og áhöfnina í haldi í hálft ár.

Blach segist hafa komist á snoðir um þetta þegar hann fór um borð í skipið til að lána áhöfn þess eldsneyti og lyf. Hann segir að móðir stúlkunnar sé einnig um borð í skipinu og hafi hún grátbeðið Blach um að taka dótturina með sér þegar hann fékk frelsið. Þetta segir Blach sjóræningjana ekki hafa heimilað en tólf sjóræningjar hafi verið um borð í Ariana. Hins vegar hafi 30 sjóræningjar verið á hans skipi sem var rænt 2. október.

Fjölskyldur áhafnar úkraínska skipsins sendu í síðasta mánuði frá sér orðsendingu til sjóræningjanna og útgerðar skipsins og báðu um að samningaviðræðum um lausnargjald yrði flýtt en skipið hefur verið á valdi ræningjanna síðan 2. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×