Innlent

Staðfesti gæsluvarðhald yfir haglabyssumanni

Maðurinn leiddur fyrir dómara.
Maðurinn leiddur fyrir dómara.

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms frá því fyrir helgi að gæsluvarðhald skuli framlengt yfir manninum sem skaut með haglabyssu á útidyrahurð íbúðarhúss í Seljahverfi fyrir rúmum mánuði. Maðurinn skal því sitja í varðhaldi til 15. janúar að minnsta kosti.

Krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um framlengingu byggði á almannahagsmunum en litið er á atvikið sem tilraun til manndráps. Eins og fram hefur komið í fréttum var bankað upp á í húsi í Seljahverfi aðfaranótt sunnudagsins 15. nóvember. Þegar íbúinn kom til dyra stóð maðurinn vopnaður haglabyssu fyrir utan og sló til hans með byssuskaftinu. Íbúinn náði að loka útidyrahurðinni en þá hleypti maðurinn fimm haglabyssuskotum af. Þau höfnuðu í hurðinni auk þess sem gluggi í forstofu brotnaði.

Með byssumanninum var kærasta hans, sem er fyrrverandi starfsmaður íbúans. Hann hafði skömmu áður sagt henni upp störfum í bakaríi þar sem hann er yfirmaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×