Erlent

Neyðarlínan heyrði banaskotið -upptaka

Óli Tynes skrifar

Starfskona neyðarlínu í Oklahoma í Bandaríkjunum heyrði greinilega í símanum hvernig hinn fimmtíu og þriggja ára gamli Billy Dean Riley barði hús Donnu Jackson að utan eftir að hún hafði hringt til þess að biðja um aðstoð á aðfararnótt laugardags.

Jackson sem er fimmtíu og sjö ára gömul býr á afskekktum staði í Lincoln sýslu. Hún varaði Riley við því að hún væri vopnuð og að hún myndi skjóta ef hann reyndi að brjótast inn.

Við starfskonu neyðarlínunnar sagði hún; -Guð ég vil ekki drepa þennan mann, en ég steindrep hann ef hann kemur inn.

Og starfskonan svaraði; -Ég skil frú.

Jackson ítrekar beiðni sína um að lögregla verði fljót á staðinn. Svo heyrist mikill hamagangur og brothljóð þegar Riley brýtur rúðu. Svo heyrist skothvellur.

Eftir það kemur Jackson aftur í símann og hrópar; -Ó Guð ég held ég hafi drepið hann. Ó Faðir á himnum, ó Guð.

Málið er til rannsóknar en búist er við að drápið falli undir lög um sjálfsvörn sem gilda í Oklahoma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×