Innlent

Er bíllinn í lagi?

Búast má við þungri umferð víðsvegar um landið á næstu dögum.
Búast má við þungri umferð víðsvegar um landið á næstu dögum.
Áður en lagt er af stað í ferðalag geta bíleigendur sjálfir athugað og framkvæmt ýmislegt, til dæmis: Eru dekk og felgur í lagi? Eru dekkin óslitin, mynsturdýpt skal vera minnst 1,6 millimetrar eða ekki meira slitin en svo að þeim sé treystandi út á þjóðvegina, ekki síst malarvegina? Er nóg loft í dekkjunum? Er nóg loft í varadekkinu? Er tjakkur og felgulykill í bílnum?

Er næg olía á vélinni? Er olíubrúsi í bílnum til að bæta á vélina ef olíustaðan lækkar? Er nógur vökvi á kælikerfinu? Er vökvi á rúðusprautukerfinu? Eru þurrkublöðin í lagi?

Eru kerti og kertaþræðir í lagi og eru kertaþræðirnir hreinir? Ef svo er ekki þá skiptið um þá og kertin líka ef þið eruð ekki viss um aldur þeirra. Endingartími kerta er talinn vera frá 10 til 30.000 km og fer það eftir bílategund og bensíntegund. Óhreinir og lélegir kertaþræðir geta valdið skammhlaupi, sérstaklega ef loft er rakt. Þá fer bíllinn ekki í gang.

Er viftureimin nægilega strekkt? Er tímareimin orðin gömul? Ef svo er, eða að vafi er um aldur hennar, skiptið um hana. Ef hún slitnar stöðvast bíllinn og vélin stórskemmist.

Hjálparvakt hjá FÍB

Hjálparþjónusta FÍB miðast við að aðstoða bíleigendur á ferðalagi sem þurfa á þjónustu bílaverkstæðis að halda eða vantar varahlut. FÍB aðstoðarbílar verða á fjölförnustu leiðum og umboðsmenn félagsins og samstarfsaðilar um land allt eru í viðbragðsstöðu.

Starfsfólk FÍB verður á vakt í höfuðstöðvum félagsins á daginn og svarar aðstoðarbeiðnum og miðlar upplýsingum í síma 414 9999 og í síma FÍB aðstoðar sem er 5 112 112. Á kvöldin og nóttunni verður hjálparbeiðnum eingöngu svarað í síma 5 112 112.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×