Erlent

Tólf fjölskyldumeðlimir féllu í loftárás Ísraela

Minnst tólf meðlimir sömu fjölskyldu féllu í loftárás Ísraela á heimili þeirra á Gaza ströndinni í nótt að því er AFP fréttastofan greinir frá. Þar af voru sjö börn á aldrinum eins til tólf ára, þrjár konur og tveir karlmenn. Þá lést maður sem átti leið hjá húsinu í árásunum.

Hús fjölskyldunnar varð fyrir tveimur flugskeytum, og komu björgunarmenn ekki á vettvang fyrr en mörgum klukkustundum síðar. Níu eru enn taldir vera grafnir í rústunum.

Þá létust tíu og tugir særðust þegar ísraelskar sriðdrekasveitir vörpuðu tveimur sprengjum á skóla á Gaza. Sameinuðu þjóðirnar reka skólann, og hafði fólk leitað skjóls þar fyrir bardögunum. Sprengjurnar sprungu fyrir utan skólann og dreifðu sprengjubrotum á fólk innan og utan skólans. Fyrr í dag létust þrír í loftárás ísraelska hersins á annan skóla.

Læknar á Gaza segja að tæplega sex hundruð Palestínumenn hafi fallið frá því Ísrael hóf hernaðaraðgerðir sínar gegn Hamas samtökunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×