Innlent

Samanburður nýju íbúðunum í óhag

Húsaleiga í nýjum íbúðum sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar býður eldri borgurum til leigu er rúmlega 150 prósentum hærri en í ódýrustu þjónustuíbúðunum sem borgin leigir út.

Velferðarsvið er með sjö nýjar íbúðir til ráðstöfunar í fyrsta áfanga í uppbyggingu öryggisíbúða Hjúkrunarheimilisins Eirar við Fróðengi. Alls var samið um að sviðið fái 21 íbúð.

Leigan í nýju íbúðunum er umtalsvert dýrari en í öðrum íbúðum sem velferðarsvið úthlutar. Áætlað er að einstaklingsíbúðir við Fróðengi muni kosta leigjandann 110 þúsund á mánuði, en ódýrasta einstaklingsíbúðin annars staðar kostar tæplega 41 þúsund krónur, og munar því 69 þúsund krónum á mánuði.

Tveggja herbergja íbúðir við Fróðengi munu líklega kosta um 155 þúsund krónur á mánuði, um 90.500 krónum meira en ódýrustu tveggja herbergja íbúðirnar, sem kosta um 64.500 krónur á mánuði.

Rétt er að taka fram að ekki er tekið tillit til annarra þátta en leiguverðs og kostnaðar við að búa í íbúðunum í þessum samanburði. Gæði íbúða og þjónusta sem íbúar njóta geta verið mismunandi milli íbúða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×