Innlent

Icesave ætlaður alltof skammur tími

Höskuldur Þórhallsson
Höskuldur Þórhallsson

„Það kemur ekki á óvart að þau skuli ekki hafa fengist til verksins. Það mun enginn fást til að vinna svo mikilvægt og flókið lögfræðiálit á þeim stutta tíma sem meirihlutinn hefur ákveðið.“

Þetta segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, um höfnun Guðrúnar Erlendsdóttur og Péturs Kr. Hafstein, fyrrverandi hæstaréttardómara, á málaleitan Alþingis um að leggja mat á hvort Icesave-frumvarpið standist stjórnarskrá.

Höskuldur segir Framsóknarflokkinn hafa viljað fá þau til verksins þar sem þau hafi ekki tjáð sig opinberlega um álitaefnið. Þeir sem það hafi gert séu vanhæfir.

Framsóknarmenn vilja að stofnunin Center for European Studies í Brussel leggi mat á sum af efnahagslegum álitamálum Ice­save-málsins.

Forstöðumaður hennar er Daniel Gros, fulltrúi flokksins í bankaráði Seðlabankans. Gros varaði við samþykkt Icesave í Morgunblaðinu í gær. Spurður hvort þetta samrýmdist kröfu framsóknarmanna um hæfi segir Höskuldur það ekki snúast um persónur heldur stofnanir.

„Við treystum þessari stofnun, eins og við treystum hagfræðistofnun og lagastofnun Háskólans, þó starfsmenn þeirra hafi tjáð sig,“ segir hann.

Höskuldur ætlun meirihlutans að taka Icesave-málið út úr nefnd um miðja næstu viku. Það sé óraunhæft og þar með brot á samkomulagi meiri- og minnihlutans um vandaða málsmeðferð. Útilokað sé að ljúka málinu fyrir áramót nema fólki verði gefinn sanngjarn frestur til að ljúka þeim álitum sem þurfa að liggja fyrir.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×