Viðskipti innlent

Samorka mótmælir úrskurði umhverfisráðherra

Stjórn Samorku mótmælir harðlega úrskurði umhverfisráðherra um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi og öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík.

Í tilkynningu segir að stjórn samtakanna skori á ráðherra að draga úrskurðinn til baka nú þegar, en ella mun hann tefja framkvæmdir um ófyrirséðan tíma auk þess að valda ómældum viðbótarkostnaði.

Fram hefur komið að úrskurður ráðherra hefur að engu lögbundin tímamörk og gengur að auki gegn fyrri úrskurði umhverfisráðherra frá apríl 2008. Úrskurðurinn nú er því dæmi um afleita stjórnsýslu og algert virðingarleysi við lög í landinu. Slíkt starfsumhverfi er engum fyrirtækjum boðlegt.

Ennfremur lýsir stjórn Samorku verulegum áhyggjum af boðuðum umhverfis-, auðlinda- og orkusköttum, sem skila eiga ríkissjóði 16 milljarða tekjum á næsta ári. Skattheimtan hefur ekki verið útfærð ennþá en færi slík skattheimta beint út í verðlagið myndi það þýða 20-25% hækkun orkuverðs (á rafmagni og heitu vatni), að jafnaði, til heimila og fyrirtækja.

Íslendingar hafa lengi búið að grænustu orku í veröldinni en jafnframt einhverri ódýrustu orku á Vesturlöndum. Nú stefnir í að hún verði eingöngu áfram sú grænasta. Slíkar skattahækkanir munu skerða samkeppnishæfni íslenskra orkufyrirtækja og draga úr ágæti Íslands sem fjárfestingarkosts fyrir hvers kyns framleiðslustarfsemi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×