Erlent

Rottueyja rottulaus í fyrsta sinn í 229 ár

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þessar rottur tengjast fréttinni ekki.
Þessar rottur tengjast fréttinni ekki.

Rottur hafa verið ráðandi tegund á Rottueyju síðan árið 1780. Þá fórst japanskt skip í nágrenni eyjarinnar og allar rottur sem um borð voru syntu í land á Rottueyju, sem reyndar hét ekki Rottueyja þá heldur Aleutian-eyja.

Um var að ræða brúnrottur og gerðust þær svo skæðar á hinu nýfengna eylandi sínu að allar aðrar dýrategundir höfðu sig á brott eða voru hreinlega étnar, allt nema stærstu fuglar. En það er af sem áður var, Fiski- og villidýrastofnun Bandaríkjanna tók að sér að demba rottueitri úr þyrlum yfir Rottueyju síðasta haust og stóðu þær loftárásir linnulaust í eina og hálfa viku.

Aðgerðirnar báru tilætlaðan árangur og nú segjast eftirlitsmenn ekki koma auga á eina einustu rottu á eyjunni en fuglar séu hins vegar farnir að gera sig heimankomna þar á ný. Kannski er það eins gott að aðgerðirnar skiluðu árangri þar sem eiturflugið kostaði hvorki meira né minna en tvær og hálfa milljón dollara og kallar Reuters-fréttastofan tiltækið metnaðarfyllstu tilraun fram að þessu til að losa eyland við skaðræðistegund.

Hafi í raun tekist svo vel til að útrýma rottunum gjörsamlega er eyjan rottulaus í fyrsta sinn í 229 ár og vafasamt hvort nafnið eigi við hana lengur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×