Innlent

Björgunarsveitamenn hafa aldrei upplifað eins annasaman júlímánuð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristinn Ólafsson er framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Kristinn Ólafsson er framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa aldrei áður upplifað eins annasaman júlímánuð og í ár, segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Samkvæmt upplýsingum frá honum eru útköll þennan mánuð orðin tæplega 100 og eru þá ekki talin með allar þær fjölmörgu aðstoðabeiðnir sem björgunarsveitir á hálendinu hafa sinnt. Útköllin eru af mörgum toga en flest útköllin hafa tengst smábátum sem lent hafa í vandræðum og aðstoð við ferðamenn sem ratað hafa í ýmsar ógöngur.

Auk þessara verkefna hafa björgunarsveitir meðal annars aðstoðað við sjúkraflutninga, slökkvistörf og leitað að týndu fólki.

Strandveiðar ein orsökin fyrir önnum hjá björgunarsveitum

Kristinn segir að helstu ástæður þess hversu mikið hafi verið að gera hjá björgunarsveitunum megi meðal annars rekja til þess að ríkisstjórnin hafi gefið út leyfi fyrir strandveiðum í sumar og hafi þá margir bátar farið á sjó sem höfðu legið óhreyfðir í langan tíma og komið upp ýmsar bilanir þegar farið var að nota bátana. Íslendingar séu orðnir mun duglegri að ferðast upp á hálendið á bílum sínum og eru margir óvarnir hálendisferðum þar innanum.

Þá segir Kristinn að aldrei hafi fleiri íslendingar gengið á fjöll og þar hafa ferðamenn verið að meiðast og einnig hafa nokkrir villst. Erlendir ferðamenn hafi sjaldan verið duglegri að sækja hálendið heim bæði gangandi og akandi. Ferðamenn þurfi oft aðstoð og leiðbeiningar þar sem staðhættir á Íslandi eru mjög frábrugðnir því sem þeir eru vanir. Veðurfar og landslag á landinu er einstak og framandi. Algengt sé að rekast á vanbúna ferðamenn upp á hálendinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×