Innlent

Ótrúlega bjartsýnn stútur

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Ölvaður karl á þrítugsaldri missti stjórn á bíl sínum þegar hann átti leið um gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar um helgina. Bíll mannsins hafnaði á bifhjóli og síðan á annarri bifreið áður en hann stöðvaðist á umferðarljósavita. Þetta kemur fram á vef lögreglunnar.

Hinn drukkni ökumaður og farþegi hans, sem einnig var ölvaður, stungu af. Þeir komu á lögreglustöð klukkutíma síðar til að sækja bílinn en voru þá handteknir og settir í fangageymslu til að sofa úr sér áfengisvímuna.

10 teknir fyrir ölvunarakstur

Tíu ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tveir þeirra höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.

Einn var stöðvaður á föstudagskvöld, sex á laugardag og þrír á sunnudag. Sex voru teknir í Reykjavík, tveir í Kópavogi og einn í Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Þetta voru átta karlar á aldrinum 18-48 ára og tvær konur.

16 ára stúlka hafnaði á vinnuvél

Yngri konan lenti í umferðaróhappi í Kópavogi en bíll hennar hafnaði á kyrrstæðri vinnuvél. Konan hefur aldrei öðlast ökuréttindi enda er hún aðeins 16 ára.

Hafnaði utan vegar

Eldri konan, sem er á sjötugsaldri, lenti líka í umferðaróhappi. Hún missti stjórn á bíl sínum í Hafnarfirði og fór yfir á rangan vegarhelming og hafnaði á öðrum bíl sem kom aðvífandi. Bíll konunnar hafnaði að lokum utan vegar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×