Innlent

Hrollkalt í Mývatnssveit - húsfreyja kippir sér ekki upp við kuldann

Það er vissulega fallegt í sveitinni þegar frostið fer niður í 20 stig.
Það er vissulega fallegt í sveitinni þegar frostið fer niður í 20 stig.

„Þegar ég leit á mælinn minn sýndi hann 17 til 18 stiga frost," segir Guðrún Þórarinsdóttir, húsfreyja á gistiheimilinu Eldá við Mývatn en frost í Mývatnssveit fór niður í 22,8 stig í Svartárkoti í Bárðardal. Því var hrollkalt í sveitinni í nótt en RÚV greindi frá því að heimskautaloft væri yfir landinu og að Veðurstofan spái því að áfram verði kalt víðast hvar á landinu.

Sjö ferðamenn gistu á Eldá í nótt og heilluðust af kuldanum og stilltu veðrinu í morgun.

„Þeir sögðu bara vá þegar ég þegar ég sagði þeim hvað það væri kalt," segir Guðrún sem heldur gistiheimilinu opnu allan ársins hring. Sjálf segist hún ekkert kippa sér upp við kuldann. Veðrið er gott og stillt að sögn Guðrúnar og landslagið er gullfallegt enda hrím yfir öllu.

„Það er allt saman hrímað, raflínur og tré," segir Guðrún. Aðspurð segir hún ferðamannastrauminn hafa verið ágætan, í það minnsta langt frá frostmarki, nokkuð hafi verið um ferðamenn í sveitinni í vetur og ekki yfir neinu að kvarta að hennar sögn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×