Erlent

Smyglaði 200 tonnum af kókaíni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kókaínbögglar, þó ekki úr þeim málum sem hér segir frá.
Kókaínbögglar, þó ekki úr þeim málum sem hér segir frá.

Mexíkóskur kókaínbarón hefur verið dæmdur í 27 ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að smygla að minnsta kosti 200 tonnum af kókaíni frá Mexíkó til Bandaríkjanna.

Gilberto Salinas Doria kvaðst sekur um ákæruatriðin þegar dómari í New York bað hann að taka afstöðu til þess hvort hann hefði smyglað allt að 200 tonnum af kókaíni inn í Bandaríkin á árunum 1994 til 1999. Þessi játning átti sér stað í desember í fyrra eftir að mexíkósk yfirvöld höfðu framselt Doria til Bandaríkjanna en hann er einn af þungavigtarmönnunum í hinum svokallaða Juarez-eiturlyfjahring sem gerir út frá mexíkósku borginni Ciudad Juarez.

Doria stjórnaði flutningi kókaínsins frá Reynosa í Mexíkó yfir til Texas og hafði til þess fjölda manns í vinnu. Frá Texas streymdi kókaínið svo á markaði í Los Angeles, New York og fleiri bandarískum borgum. Sömu aðilar smygluðu svo bílförmum af dollurum og skotvopnum til baka til Mexíkó þar sem Juarez-hringurinn beið fengsins. Það var svo núna í byrjun vikunnar sem Doria hlaut 27 ára fangelsisdóm fyrir smyglið og mun afplána hann í bandarísku fangelsi.

Forsetar Bandaríkjanna og Mexíkó, Barack Obama og Felipe Calderon, hafa tekið höndum saman í baráttunni við mexíkóska eiturlyfjahringi en rúmlega 15.000 manns hafa fallið í átökum tengdum fíkniefnamarkaðinum í Mexíkó síðan árið 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×