Innlent

Hætt við að kreppan lengi biðlista að nýju

Mikill missir er af hverjum vel menntuðum heilbrigðisstarfsmanni. fréttablaðið/pjetur
Mikill missir er af hverjum vel menntuðum heilbrigðisstarfsmanni. fréttablaðið/pjetur
„Ég óttast að hluti af fórnarkostnaði kreppunnar hjá okkur verði lenging biðlista að nýju,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.

Biðlistar á sjúkrahúsum fyrir nær allar valdar skurðaðgerðir hafa verið að styttast og staðan er almennt góð, samkvæmt októbertölum frá Landlæknisembættinu. Má sem dæmi nefna að langur biðlisti var fyrir hjartaþræðingar á Landspítala á árunum 2007 og 2008 en sá biðlisti er nú nær horfinn. „Við verðum að minnka framboð á þjónustu eins og á svokölluðum valaðgerðum,“ segir Björn.

Laun eru langstærsti útgjaldaliður Landspítalans. Björn segir að á næsta ári sé fyrirsjáanlegt að starfsfólki fækki um 200 manns. „Við höfum sagt að helmingi þeirrar tölu verði náð með starfsmannaveltu. Í jafn sérhæfðri starfsemi og okkar er það erfitt en reynt verður að fara þessa leið í stað uppsagna.“

Öll laun á Landspítalanum hafa lækkað á þessu ári nema þeirra launalægstu. Það felst í gerbreyttri starfsemi. Öll þjónusta hefur verið minnkuð um kvöld og helgar. Launalækkanir eru misjafnlega miklar eftir stéttum. Meðaltalið er sjö til tíu prósent, segir Björn.

Önnur afleiðing niðurskurðarins, og breytinga af hans völdum innan Landspítalans, sem orðið hefur vart við að undanförnu er landflótti fagfólks: lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. „Þetta er vissulega byrjað. Ég finn það innan spítalans og mér er sagt að rót sé komið á fólk. Það er verið að bjóða í unga fólkið okkar og sú eftirspurn kemur aðallega frá Norðurlöndunum. Það er gert með því fororði að menn vilji bjarga fólki frá því ástandi sem hér er,“ segir Björn.

Björn nefnir dæmi um að ekki þurfi mikið til að auka þrýstinginn á menntað starfsfólk spítalans. „Síðasta holskeflan sem reið hér yfir var í kjölfar frétta um að McDonald‘s væri að fara úr landi. Þá sáu menn ástæðu til að reyna að „bjarga“ fólki frá aðstæðum sínum. Þetta hangir allt saman.“

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær borgar spítalinn nokkur hundruð milljónir í dráttarvexti á næsta ári vegna skulda við birgja. Björn hefur bent á að á sama tíma og LSH skuldi fyrirtækjum fé standi þau frammi fyrir lokun af hálfu opinberra aðila vegna vanskila á virðisaukaskatti.

svavar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×