Innlent

LÍÚ fær 45 milljónir án þess að vilja þær

Hlutaskipti Landssamband útvegsmanna og Landssamband smábátaeigenda fá hlut af aflaverðmæti í landinu. Hlutur hvors sambands um sig nam meira en fjörutíu milljónum króna á síðasta ári.Fréttablaðið/GVA
Hlutaskipti Landssamband útvegsmanna og Landssamband smábátaeigenda fá hlut af aflaverðmæti í landinu. Hlutur hvors sambands um sig nam meira en fjörutíu milljónum króna á síðasta ári.Fréttablaðið/GVA

Hluti af aflaverðmæti á Íslandsmiðum rennur til samtaka útgerða í landinu, samkvæmt 23ja ára gömlum lögum. Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Landssamband smábátaeigenda hafa hvort um sig liðlega fjörutíu milljónir í tekjur af þessu gjaldi á ári. LÍÚ vill að þessari gjaldtöku verði hætt en smábátasjómenn eru sáttir við fyrirkomulagið.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að LÍÚ vilji losna við þessar lögþvinguðu greiðslur og hafi þrívegis ályktað um það á aðalfundi en stjórnvöld hafi ekki tekið mark á þeim ályktunum. „Við teljum að þetta gjald sé barn síns tíma og að þessar tekjur eigi að koma með venjulegum félagsgjöldum,“ segir Friðrik. LÍÚ innheimtir líka um fimm milljónir króna á ári í félagsgjöld af þeim sem óska eftir inngöngu í samtökin.

Landssamband smábátaeigenda hefur hins vegar ályktað til stuðnings þessu fyrirkomulagi á sínum aðalfundi. Gjaldið kemur í stað allra félagsgjalda um 1.300 smábátaeigenda. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að hins vegar vilji sambandið gera þær breytingar á lögum um verðjöfnun og greiðslumiðlun í sjávarútvegi að hætt verði að taka það gjald af aflaverðmæti sem látið er renna í lífeyrissjóði og til að greiða tryggingar fiskiskipa og -báta.

Lögin fela hagsmunasamtökum útgerðanna umsýslu þeirra gjalda en mótframlag í lífeyrissjóð sjómanna er til dæmis greitt með þessu gjaldi af aflaverðmæti. Í samtali við Fréttablaðið voru talsmenn beggja samtakanna sammála um það fyrirkomulag. Örn lagði hins vegar áherslu á að þetta hefði reynst vel áður fyrr og meðal annars skilað hagkvæmum tryggingaiðgjöldum fyrir smábátasjómenn.peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×