Innlent

Svo sannarlega ekkert lamb að leika sér við

Björgunarmenn með tvo hunda reyndu að ná lambinu, sem sést efst til hægri, þar sem það var í hömrum norðvestanvert í Úlfarsfelli.
Björgunarmenn með tvo hunda reyndu að ná lambinu, sem sést efst til hægri, þar sem það var í hömrum norðvestanvert í Úlfarsfelli. fréttablaðið/vilhelm

„Lambið er mjög sprækt og ljónstyggt svo að það er mjög erfitt að nálgast það,“ segir Hlynur Sigurðarson, formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, sem ásamt þremur öðrum björgunarsveitarmönnum og sex bændum gerði árangurslausa tilraun til að ná lambi af syllu í Úlfarsfelli í gær.

Lambið hefur hafst við í Úlfarsfelli undanfarnar vikur eftir að það varð viðskila við aðrar kindur. Hlynur segist ekki vita hver sé eigandi þess en að höfðu samráði við lögregluna hafi verið ákveðið að reyna að ná því.

„Það varð uppistand vegna lambsins í haust þegar það fór hér út á götu og truflaði umferð en þegar fólk reyndi að nálgast það þá hljóp það upp í fjall,“ segir Hlynur.

Björgunarmönnum tóks að reka lambið niður af syllunni í gær. Þeir björgunarmenn sem þar biðu náðu hins vegar ekki að handsama lambið og því hljóp það aftur upp í fjall og út á syllur sem Hlynur segir glerhálar. Hann segir varasamt að reyna að ná lambinu þar sem það er núna. Með því yrði bæði lambið og mannskapurinn settur í óþarfa hættu.

Til stendur að reyna að ná lambinu síðar. „Lambið hefur greinilega nóg að éta þannig að það er alveg full orka í því,“ segir Hlynur. - ovd




Fleiri fréttir

Sjá meira


×