Erlent

Serbar setja fé til höfuðs Mladic

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ratko Mladic
Ratko Mladic MYND/AFP

Serbnesk yfirvöld heita nú einni milljón evra í verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku stríðsglæpamannsins Ratko Mladic.

Plaköt með mynd af hinum illræmda Mladic prýða nú veggi velflestra lögreglustöðva Serbíu enda hefur alþjóðasamfélagið ítrekað skorað á þarlend stjórnvöld að finna hershöfðingjann fyrrverandi og láta hann standa reikningsskil gjörða sinna.

Mladic er grunaður um að hafa staðið að mestu á bak við fjöldamorðin í smábænum Srebrenica í austurhluta Bosníu sumarið 1995 en þar er talið að um 8.000 múslimar hafi týnt lífi sínu. Mladic starfaði þar í skjóli slátrarans frá Bosníu svonefnda, geðlæknisins Radovan Karadzic, sem var leiðtogi Bosníu-Serba í borgarastyrjöldinni 1992 - 1995, og serbnesk yfirvöld handtóku í fyrrasumar.

Að Karadzic handteknum er Mladic talinn hættulegasti stríðsglæpamaður sem enn gengur laus og hefur honum tekist að fara huldu höfði í ein 13 ár. Mikið er í húfi fyrir serbnesk stjórnvöld sem hafa sett stefnuna á Evrópusambandsaðild en eitt af skilyrðum sambandsins er að Mladic verði dreginn fyrir stríðsglæpadómstólinn í Haag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×