Innlent

Seðlabankinn reistur við úr tæknilegu gjaldþroti

Seðlabanki Íslands mun afskrifa 75 milljarða af kröfum fjármálafyrirtækja. Verið er að reisa Seðlabankann við úr því tæknilega gjaldþroti sem hann kom sér í og reikningurinn er sendur til skattgreiðenda, segir hagfræðingur.

Í tilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér síðdegis segir að ríkissjóður yfirtaki 345 milljarða króna kröfur Seðlabanka Íslands á hendur fjármálafyrirtækjum og greiði fyrir það 270 milljarða með verðtryggðu skuldabréfi. Seðlabankinn afskrifar með einu pennastriki 75 milljarða, en hvað þýðir þetta að öðru leyti?

,,Hér er verið að bregðast við þeirri staðreynda að fjárhagur SÍ var mjög laskaður. Hans eigið fé hafði þornað upp eftir miklar lánveitingar til ýmissa fjármálastofnana gegn ótryggum veðum og þessi lán eru að verulegu leyti töpuð," segir Ólafur.

Að sögn Ólafs hefur það legið fyrir um skeið að endurreisa hafi þurft fjárhag Seðlabankans úr því sem mætti kalla tæknilegt gjaldþrot. Gert sé ráð fyrir því - meðal annars - í samkomulagi stjórnvalda og alþjóða gjaldleyrissjóðsins.

,,Nú hefur þetta verið gert með þessum hætti og reikningurinn að sjálfsögðu sendur skattgreiðendum því það eru að sjáflsögðu skattgreiðendur sem standa á bak við ríkissjóð," segir Ólafur.

Er eðlilegt að gert sé með þessum hætti? ,,Það hefur legið fyrir að Seðlabankinn væri óstarfhæfur ef hans fjárhagur væri ekki endurreistur. Auðvitað má velta fyrir sér hvort önnur leið hefði verið heppilegri en þessi varð fyrir valinu," segir Ólafur.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×