Erlent

Kókaínlöggur handteknar eftir flókna leyniaðgerð

Teikning af Juan Acosta í dómsal í gær.
Teikning af Juan Acosta í dómsal í gær.

Lögreglumaðurinn Juan Acosta, sem sinnti störfum sínum í New York, Bandaríkjunum, hefur verið ákærður fyrir að flytja kíló af kókaíni á milli bæjarhluta gegn greiðslu frá fíkniefnabaróni. Aftur á móti reyndist baróninn vera lögreglumaður í dulargervi.

Innra eftirlitið í lögreglunni fór að gruna Acosta og félaga hans, Yorick Rafael Corniel-Perez um græsku árið 2005 eftir að þeir rændu nokkru hundruð þúsund dollurum úr fíkniefnamáli sem lögreglan hafði til rannsóknar.

Í kjölfarið var leyniaðgerð undirbúin þar sem lögreglumaður þóttist vera fíkniefnabarón. Hann réði síðan Acosta og félaga hans til starfa fyrir sig við að flytja fíkniefni á milli bæjarhluta en þeir ferjuðu efnin keyrandi á merktri lögreglubifreið. Þeir áttu svo að fá fimmtán þúsund dollara fyrir viðvikið.

Acosta og félaginn tóku við pakka sem þeir álitu innihalda kíló af kókaíni. Svo keyrðu þeir ætluðu efnin á áfangastað. Þar tók lögreglan á móti þeim og handtók þá.

Mennirnir mættu fyrir rétt í gær þar sem málið var þingfest í dómsal en gáfu ekki upp afstöðu til sakarefnisins. Þeir þurfa að sitja í fangelsi þar til dómur fellur í málinu.

Móðir Acosta vildi ekki tjá sig við fréttamann New York Post samkvæmt frétt á vefsíðu þeirra, hún sagði vandamálin vera næg. Acosta á þrjú börn, þau eru 2, 5 og 8 ára gömul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×