Innlent

Segir fólk í átthagafjötrum í borginni

Elliði Vignisson Bæjarstjórinn var á fundi með útgerðarmönnum í Vestmannaeyjum í gær. Hann segir að stjórnvöld gerðu vel ef þau hættu að ögra stöðugleikanum í sjávarútvegi. Mynd/óskar friðriksson
Elliði Vignisson Bæjarstjórinn var á fundi með útgerðarmönnum í Vestmannaeyjum í gær. Hann segir að stjórnvöld gerðu vel ef þau hættu að ögra stöðugleikanum í sjávarútvegi. Mynd/óskar friðriksson

Nú í kreppunni hefur áhugi fólks á því að búa á landsbyggðinni stóraukist og nú þegar fjölgar ungu fólki í nokkrum byggðum þar sem slíku hefur ekki verið að fagna í áraraðir.

Þetta segja Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, Ólafur Hr. Sigurðsson, starfsbróðir hans frá Seyðisfirði, og Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Öryggi og fjölskylduvænt samfélag er eitt það helsta sem fólkið leitar eftir, segja þeir, auk þess sem margir vilja snúa baki við þeim gildum sem ráðið hafa ríkjum á suðvesturhorninu.

„Ég held að það felist ákveðin tækifæri fyrir fólk í því undarlega umhverfi sem við búum við einmitt núna,“ segir Ómar Már. „Og það felst í því að hér [á landsbyggðinni] eru mannlífs- og atvinnulífshættir reistir á betri grunni heldur en það sem hefur verið að byggjast upp á svokölluðum þenslusvæðum.“

En ekki geta allir sem vilja flust út á landsbyggðina; Elliði segir fjölmarga sitja í átthagafjötrum í borginni. „Fólkið hefur elt fjármagnið og atvinnuna sem öll hefur verið á höfuðborgarsvæðinu en nú þegar bólan er sprungin situr það uppi með ofurskuldsetta eign svo að það er í raun í átthagafjötrum í borginni.“

Ómar segir að ríkið þurfi að styðja betur við bakið á sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á landsbyggðinni. „Við höfum heyrt mikla umræðu um nýsköpun en því miður virðast orð og æði ekki fara þar saman,“ segir hann.

Elliði og Ólafur hafa hins vegar hug á öðruvísi stuðningi. „Veigamesti stuðningurinn sem við gætum fengið frá ríkinu væri að fá frið til að byggja upp okkar atvinnuvegi án þess að eiga það sífellt á hættu að fótunum verði kippt undan því,“ segir Elliði. „Það er óþolandi að vinna í sjávar­útvegi þegar sífellt er verið að ögra þeim forsendum sem fyrir honum eru.“ Á hann þá meðal annars við umræður um eignarupptöku á kvóta og veiðileyfagjöldum.

„Stundum er aðgerðarleysi af hálfu ríkisins það skásta,“ segir Ólafur. „Það sést vel á fyrirtækjum sem eru alfarið í eigu ríkisins, eins og RARIK og Pósturinn. Þar gilda græðgissjónarmið sem reytt hafa af landsbyggðinni út í það óendanlega í nafni óeðlilega mikillar arðsemi. En það sjá allir hvernig þess háttar græðgi hefur reynst þjóðinni.“

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×