Erlent

NAACP vilja myndir af lögregluofbeldi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Malasískir lögreglumenn þjarma að mótmælanda í Kuala Lumpur.
Malasískir lögreglumenn þjarma að mótmælanda í Kuala Lumpur.

Réttindasamtök þeldökkra í Bandaríkjunum (NAACP) hafa opnað fyrir möguleika til að hlaða myndum af lögregluofbeldi inn á heimasíðu samtakanna.

Þarna er um að ræða allsherjartilkynningakerfi um tilvik þar sem lögregla fer offari í starfi sínu og beitir óþarfa hörku eða ofbeldi. Nú býðst farsímanotendum hvort tveggja að færa myndir úr farsímum sínum inn á heimasíðuna og eins að senda SMS-skilaboð, eða bara hefðbundinn tölvupóst, til að koma upplýsingum á framfæri.

Benjamin Jealous, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að langflestir lögreglumenn séu til hreinnar fyrirmyndar en hins vegar sé það algengt að þeir sem brjóti á mannréttindum annarra við störf sín séu of sjaldan látnir sæta ábyrgð. Slíkt geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir öryggi og traust almennings.

Samtökin opnuðu formlega fyrir þennan nýja möguleika á síðunni á ráðstefnu í New York á mánudaginn. Þau fagna 100 ára afmæli sínu um þessar mundir en stofndagurinn var 12. febrúar 1909. Skemmst er að minnast þess er lögregluþjónn í Oakland í Kaliforníu var ákærður fyrir morð eftir að farsímamyndskeið sýndi hann glöggt skjóta óvopnaðan mann til bana á nýársdag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×