Innlent

Engum sagt upp á heilbrigðisstofnun Siglufjarðar

Konráð Karl Baldvinsson framkvæmdarstjóri heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar.
Konráð Karl Baldvinsson framkvæmdarstjóri heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar. MYND/VILHELM

Konráð Karl Baldvinsson framkvæmdarstjóri heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar segir að engum starfsmanni stofnunarinnar hafi verið sagt beint upp. Uppsagnir á núverandi vaktafyrirkomulagi snerti hinsvegar 35-40 af 60 starfsmönnum stofnunarinnar. Sparnaðaraðgerðir segir framkvæmdarstjórinn.

Á vef Sjúkraliðafélags Íslands segir að öllum starfsmönnum stofnunarinnar hafi verið sagt upp störfum. Í uppsagnarbréfinu komi fram að fyrirhugaðar séu róttækar breytingar á stofnuninni og þetta sé liður í þeim.

Konráð segir þetta ekki rétt því engum starfsmanni hafi verið sagt upp störfum. „Það þarf samt að átta sig á því að þegar svona er gert þá er það ekki bein uppsögn en starfsfólk getur sjálfsagt tekið þessu sem uppsögn," segir Konráð.

„Við erum að breyta því starfsfyrirkomulagi sem starfsfólk hefur samkvæmt kjarasamningum. Þegar svona miklar breytingar eru gerðar getur fólk tekið því sem uppsögn. Það hefur hinsvegar enginn gert svo ég viti."

Rætt hefur verið um hugsanlega sameiningu heilbrigðisstofnanna Siglufjarðar, Dalvíkur og Ólafsfjarðar en Konráð segir það mál ekki koma þessu við.

„Það er allt til skoðunar í ráðuneytinu og ég vonast til þess að það verði komin niðurstaða í þau mál á næstu vikum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×