Innlent

Segir helstu fyrirheit leikskólaráðs svikin

Leikskólabörn
Leikskólabörn
Formaður leikskólaráðs sagði í bréfi í maí að hann hefði, í samræmi við aðgerðaáætlun borgarinnar, lagt megináherslu á að standa vörð um grunnþjónustu, störf og gjaldskrár, í áætlunum um niðurskurð hjá leikskólum.

„Þetta hefur allt verið svikið,“ segir Edda Björk Þórðardóttir, úr starfshópi foreldra sem mótmælir niðurskurði á leikskólum. Í bréfi formannsins, Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, voru helstu fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir reifaðar. Þær voru til dæmis ódýrari innkaup og ræstingar.

Síðan hafa foreldrar komist að því að engin opinber skilgreining sé til á grunnþjónustu. Það hefur núverandi formaður leikskólaráðs staðfest hér í blaðinu.

Svo hefur stöðugildum verið fækkað og gjaldskrá hækkuð fyrir vistun umfram átta tíma, segir Edda Björk. Ekki sé hægt að standa vörð um innihaldslaust hugtak: „Það var ekkert hæft í þeirri fullyrðingu,“ segir hún. Í næsta atriði, um að verja störfin, hafi víst verið skorið niður:

„Aðstoðarleikskólastjórum á tveggja til þriggja deilda leikskólum, sem gæti verið um helmingur skólanna, hefur verið sagt upp. Stöðugildum deildar-, verkefna- og sérkennslustjóra hefur víða verið sagt upp. Hver á að sinna þeirra hlutverki?“ spyr Edda Björk.

Gjaldskráin, síðasta atriðið, var hækkuð 1. ágúst, þegar leikskólaráð samþykkti að „lækka framlag leikskólasviðs Reykjavíkurborgar vegna vistunar barna umfram átta klukkustundir á dag“ eins og segir í fundargerð. Hækkunin var samþykkt í sama mánuði og bréfið fór til foreldra.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, sem nú er í fæðingarorlofi frá starfi formanns ráðsins, segist hafa staðið við sitt. „Ég stend fast á því að ég hafi staðið við þetta. Við höfum farið yfir það í borgarstjórn að átta tímarnir séu grunnþjónustan og þess vegna er gjaldskrármálið utan þess,“ segir hún.

Um störfin segir Þorbjörg: „Það voru of margir á hverjum leikskóla komnir í stjórnunarstöðu. Það er ekki verið að segja þeim upp heldur hefur starfsheitum verið sagt upp. Þetta hefur ekkert verið svikið.“ klemens@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×