Erlent

Svínaflensan gæti dregið 65 þúsund Breta til dauða

Cherie Blair er smituð af Svínaflensunni.
Cherie Blair er smituð af Svínaflensunni.

Svartsýnustu spár í Bretlandi gera ráð fyrir því að 65 þúsund manns muni deyja vegna Svínaflensunnar H1N1 samkvæmt vefmiðli Guardian.

Yfirlæknir í Bretlandi, Sir Liam Donaldson, sagði þetta í dag en hann telur að versta mögulega staðan sem gæti komið upp er að 30 prósent bresku þjóðarinnar muni smitast af flensunni með tilheyrandi mannfalli.

Aftur á móti þá eru bestu spár talsvert bjartsýnni en þar kemur fram að 5 prósent þjóðarinnar smitist og 3100 manns deyi af völdum flensunnar.

Þetta mat var opinberað eftir að í ljós kom að 29 einstaklingar hafa látist vegna Svínaflensunnar í Bretlandi, nú síðast í gær.

Donaldson varaði þó við ofsahræðslu því árið 1999 til 2000 dóu tuttugu og eitt þúsund manns vegna flensu sem þá gekk yfir og vakti ekki mikla athygli almennings þá.

Frægasti sjúklingurinn sem er með Svínaflensuna er Cherie Blair, eiginkona Tony Blairs, fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Hún er þegar búin að fá Tamiflu og er á batavegi. Fjölskylda hennar hefur ekki fengið einkenni flensunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×