Innlent

Steingrímur telur að Icesave frumvarpið nái í gegn

Heimir Már Pétursson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra býst við að Icesave nái í gegn. Mynd/ Vilhelm.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra býst við að Icesave nái í gegn. Mynd/ Vilhelm.
Fjármálaráðherra býst ekki við andstöðu fleiri þingmanna Vinstri grænna við Icesave frumvarpið og reiknar með að það hljóti stuðning meirihluta Alþingis við lokaafgreiðslu þess. Ef einn stjórnarliði til viðbótar leggst gegn frumvarpinu, þarf stjórnin á stuðningi Þráins Bertelssonar að halda til að frumvarpið verði að lögum.

Tveir þingmenn Vinstri Grænna þau Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson greiddu atkvæði gegn aðalgrein Icesave frumvarps ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Þriðji þingmaðurinn, Ásmundur Einar Daðason studdi málið en gerði fyrirvara við þann stuðning þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu. Þráinn Bertelsson þingmaður utan flokka studdi hins vegar frumvarp ríkisstjórnarinnar. Ef Ásmundur Einar leggst gegn frumvarpinu við lokaafgreiðslu þess, þarf ríkisstjórnin á atkvæði Þráins að halda eigi málið ekki að falla í meðförum þingsins.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist vona að vinna fjárlaganefndar að frumvarpinu gangi vel en á ekki von á því að frumvarpið taki miklum breytingum í nefnd.

Stjórnarandstaðan krefst þess að farið verði yfir 16 atriði í tengslum við Icesave inni í fjárlaganefnd áður en málið fer til þriðju og síðustu umræðu. Stjórnarliðar stefna hins vegar að því að afgreiða málið út úr nefnd fyrir lok næstu viku og spurning hvort það verði gert í sátt við stjórnarandstöðuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×