Erlent

Hamas fá langdrægari eldflaugar

Óli Tynes skrifar
Þúsundum eldflauga hefur verið skotið á Ísrael frá Gaza ströndinni.
Þúsundum eldflauga hefur verið skotið á Ísrael frá Gaza ströndinni.

Yfirmaður leyniþjónustu ísraelska hersins segir að Hamas samtökin á Gaza svæðinu hafi fengið íranskar eldflaugar sem séu miklu langdrægari en þær eldflaugar sem þau hafa ráðið yfir hingaðtil.

Flaugar þær sem Hamas hafa hingaðtil skotið á Ísrael hafa dregið um fjörutíu kílómetra.

Ísraelskar útvarpsstöðvar segja að Amos Yadlin hershöfðingi, hafi í dag skýrt þingmönnum frá því að nýju eldflaugarnar dragi um sextíu kílómetra.

Það hefur að líkindum runnið kalt vatn á milli skinns og hörunds á ísraelsku þingmönnum við þessar fréttir því þetta þýðir að hægt er að skjóta flaugunum á Tel Aviv sem er mesti þéttbýliskjarni landsins.

Þegar Ísraelar lokuðu landnemabyggðum sínum á Gaza ströndinni og fluttu þaðan herlið sitt svöruðu palestínumenn með látlausum eldflaugaárásum frá ströndinni.

Síðasliðinn vetur gerðu Ísraelar stórfellda innrás á Gaza ströndina. Síðan hefur eldflaugaárásum þaðan stórlega fækkað.

Amos Yadlin segir hinsvegar að Hamas samtökin fái ennþá flaugar í gegnum jarðgöng milli Gaza og Egyptalands og byggi nú upp enn öflugra vopnabúr en áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×