Lífið

Fengu hjálp frá Grammy-hafa

Cosmic Call Rokkhljómsveitin frá Akranesi hefur gefið út sjö laga plötu.
Cosmic Call Rokkhljómsveitin frá Akranesi hefur gefið út sjö laga plötu.

Skagahljómsveitin Cosmic Call gaf nýverið út sjö laga plötu sem er sú fyrsta úr hennar herbúðum. Grammy-verðlaunahafinn Richard Dodd, sem hefur unnið með listamönnum á borð við Green Day, Kings of Leon, Red Hot Chili Peppers og George Harrison, sá um að leggja lokahönd á gripinn. Cosmic Call og Sigurður Ingvar Þorvaldsson stjórnuðu upptökum.

„Ég hafði samband við hann. Ég var búinn að athuga hvort einhverjir menn úti gætu gert þetta og leist best á hann,“ segir Sigurmon Hartmann Sigurðsson, söngvari og gítar­leikari Cosmic Call.

„Hann var mjög áhugasamur að gera þetta með okkur.“ Það voru hljómsveitarmeðlimirnir sjálfir sem framleiddu plötuna og fengu þeir vini sína og fjölskyldur til aðstoðar. Plötuumslagið var saumað úr lérefti og voru eitt þúsund eintök búin til. „Amma var sérstaklega dugleg en við unnum öll hörðum höndum að þessari plötu. Stelpurnar sáu að mestu leyti um saumaskapinn en það kom sá tími sem maður greip í saumavélina. Það er samt ekki mín sterkasta grein,“ segir Sigurmon.

Cosmic Call er nýkomin úr tónleikaferð um landið sem kallaðist Rokkinnrásin þar sem Nögl og Dead Model tróðu einnig upp. Sveitin er á fullu að semja nýtt efni en næstu tónleikar hennar verða á Iceland Airwaves-hátíðinni um miðjan október.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.