Lífið

Nota dans sem tjáningarform

Fræða almenning um listdans Peter Anderson dansari og Jóhanna Pálsdóttir telja að unglingar geti lært að nota dans sem tjáningarform. 
fréttablaðið/Anton
Fræða almenning um listdans Peter Anderson dansari og Jóhanna Pálsdóttir telja að unglingar geti lært að nota dans sem tjáningarform. fréttablaðið/Anton

„Hluti af verkefnum Dansflokksins er fræðsla almennings um listformið og við höfum reynt að sinna því meðal annars með því að halda ýmis námskeið. Við höfum verið að halda sérstök þriggja daga löng námskeið fyrir unglingsdrengi frá árinu 2005 og markmið námskeiðanna er að gefa drengjunum tækifæri til að kynnast listdansi,“ segir Jóhanna Pálsdóttir, markaðsstjóri Íslenska dansflokksins.

Peter Anderson er einn þeirra dansara sem kenna nútímadans í grunnskólum landsins. Hann segir að í lok hvers námskeiðs sé sett upp sýning þar sem strákarnir verða stjörnur í einn dag. „Fyrst finnst strákunum þetta fyndið og pínlegt en í lok námskeiðsins finnst þeim ekkert mál að standa á sviði og dansa fyrir framan jafnaldra sína. Þeir slá alveg í gegn þarna á sviðinu og eru klappaðir upp aftur og aftur. Það er frábært að sjá strákana yfirstíga óttann við að koma fram og uppgötva að þeir geti dansað og hreyft sig. Það eflir sjálfstraust þeirra og þeir skilja að þeir þurfa ekki að láta úrelt samfélagsgildi hefta sig,“ útskýrir Peter. Hann segir námskeiðin vel sótt og minnist þess þegar hátt í sjötíu drengir skráðu sig á námskeiðið þegar það var haldið á Selfossi.

Peter segir að í gegnum dansinn geti unglingar tjáð sig á jákvæðan hátt auk þess sem dans geti stuðlað að því að þeir vinni með hugmyndir á uppbyggilegan hátt. „Dans stuðlar að hópvinnu og kennir fólki að þróa og byggja á hugmyndum hvers annars. Mér finnst sem fólk sé of gjarnt á að gagnrýna hugmyndir strax og drepa þær þannig í fæðingu,“ segir Peter að lokum.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.