Erlent

Við vorum alls ekki boðflennur í Hvíta húsinu

Óli Tynes skrifar
Michaele Salahi heilsar upp á forsetann.
Michaele Salahi heilsar upp á forsetann.

Hjónin sem skutu upp kollinum í kvöldverðarboði í Hvíta húsinu í síðustu viku segja að þau hafi alls ekki verið boðflennur.

Tarek Salahi og kona hans Michaele heilsuðu þar upp á Barack Obama forseta, Joe Biden varaforseta og fleiri háttsetta menn og konur í ríkisstjórninni.

Í þættinum Today show á NBC sjónvarpsstöðinni sögðu hjónin að eftirmáli heimsóknar þeirra í Hvíta húsið væri það skelfilegasta sem fyrir þau hefði komið. Þau fullyrtu að þau hefðu alls ekki verið boðflennur.

Þau sögðu ennfremur að þau hefðu veitt lífvarðasveit Hvíta hússins allar þær upplýsingar sem beðið hefði verið um og að sannleikurinn myndi brátt koma í ljós.

Sektir og fangelsi

Robert Gibbs blaðafulltrúi Hvíta hússins sagði aftur á móti í samtali við CNN fréttastofuna að Salahi hjónin hefðu ekki verið á gestalistanum. -Ef þú ert ekki á gestalista en mætir samt í samkvæmi, þá ertu boðflenna samkvæmt mínum bókum, sagði Gibbs.

Hugsanlega hafa Salahi hjónin nú tekið þennan pól í hæðina þar sem líklegt er að þau verði kærð fyrir athæfið, sem getur bæði kostað þau umtalsverðar fjárhæðir og fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×