Erlent

Tiger og Elín þögul sem gröfin

Óli Tynes skrifar
Tiger og Elín.
Tiger og Elín.

Tiger Woods neitar enn að tala við lögregluna vegna bílslyssins sem hans lenti í. Dagblaðið Los Angeles Times segir að vegna þess hafi lögreglan leitað til sjúkrahússins sem hann var fluttur á til þess að fá áverkavottorð hans.

Lögreglan vill fá að vita hvort meiðsli hans hafi stafað af bílslysinu eða slagsmálum við eiginkonu sína. Lögreglan vill einnig fá aðgang að húsi hjónanna og skoða þar upptökur öryggismyndavéla.

Með golfkylfu á lofti

Vefsíðan TMZ.com heldur því fram að kylfingurinn hafi flúið heimili sitt um miðja nótt eftir heiftarlegt rifrildi við konuna vegna meints framhjáhalds hans.

Hin sænska Elín Nordgren hafi elt hann með golfkylfu á lofti og barið bílinn að utan svo heiftarlega að Tiger hafi misst stjórn á honum í látnum.

Lögreglan hefur staðfest að báðar hliðarrúður Kadilakksins hafi verið brotnar. Lögfræðingur Tigers segir að hann sé í fullum rétti til að neita að tala við lögregluna. Þann rétt hafi allir Bandaríkjamenn.

Hvað vill löggan?

Hann spyr líka hvað eiginlega lögreglan vilji þarna upp á dekk? Þarna hafi ekkert tjón orðið nema á bíl kylfingsins og enginn hafi orðið fyrir meiðslum nema hann sjálfur.

Þetta hafi verið einfalt óhapp sem Tiger kæri sig um að gera veður útaf.

Lögfræðingurinn telur líklegt að lögreglan sé enn að böðlast í málinnu vegna þess að hún vilji ekki láta líta út fyrir að Tiger sleppi við eitt eða neitt vegna frægðar sinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×