Innlent

Þorbjörn Jensson hlaut Barnamenningarverðlaunin 2009

Frá vinstri eru: Sæunn Kjartansdóttir, sem veitti viðtöku styrk til Miðstöðvar foreldra og barna til fimm ára aldurs, Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður Velferðarsjóðs barna, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Þorbjörn Jensson, handhafi barnaverðlauna Velferðarsjóðs barna árið 2009, og Soffía Pálsdóttir, sem veitti viðtöku styrk til ÍTR vegna Sumargleði Velferðarsjóðs barna.
Frá vinstri eru: Sæunn Kjartansdóttir, sem veitti viðtöku styrk til Miðstöðvar foreldra og barna til fimm ára aldurs, Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður Velferðarsjóðs barna, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Þorbjörn Jensson, handhafi barnaverðlauna Velferðarsjóðs barna árið 2009, og Soffía Pálsdóttir, sem veitti viðtöku styrk til ÍTR vegna Sumargleði Velferðarsjóðs barna. MYND/Hreinn Magnússon.

Þorbjörn Jensson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, hlaut í dag Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2009 fyrir ómetanlegt starf sitt í þágu ungmenna. Verðlaunaféð, 3,5 milljónir króna, verður nýtt til að efla nýja uppbyggingu meðal annars tónlistardeild Fjölsmiðjunnar. Alls var úthlutað ríflega 26 milljónum króna úr Velferðarsjóði barna í dag en heildarúthlutunin úr sjóðnum í ár nemur alls um 160 milljónum króna.

Í tilkynningu frá sjóðnum segir að þetta sé í fimmta sinn sem Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna er úthlutað og afhenti Kári Stefánsson Þorbirni Jenssyni verðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó í dag. Um var að ræða verðlaunagrip úr silfri er nefnist Samleið eftir Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið og ávísun að upphæð 3,5 milljónir króna.

„Fjölsmiðjan er vinnustaður þar sem ungt fólk fær þjálfun fyrir almennan vinnumarkað eða skóla. Frá því hún tók til starfa árið 2001 hafa um 400 nemendur stundað þar vinnu og hafa um 80% þeirra fundið sér farveg út í lífið að nýju, annað hvort í vinnu eða í skóla, sem telst afar góður árangur," segir ennfremur.

Við sama tækifæri var úthlutað lokastyrk að upphæð 20 milljónir króna til Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins Sumargleði velferðarsjóðs barna og veitti Soffía Pálsdóttir styrknum viðtöku fyrir hönd ÍTR, sem alls hefur fengið 40 milljóna króna styrk frá sjóðnum vegna þessa verkefnis.

„Í heild hefur Velferðarsjóður barna lagt fram í gegnum þetta verkefni 82 milljónir króna til styrktar tómstundastarfi fyrir börn á Íslandi í sumar. Um 15 þúsund börn, alls staðar að af landinu, hafa notið góðs af því en markmiðið með verkefninu er að tryggja jafnan aðgang barna að sumarnámskeiðum. Þá er verkefninu einnig ætlað að tryggja nemendum í framhaldsskólum vinnu."

Þá fékk Miðstöð foreldra og barna fram að fimm ára aldri ríflega 3ja milljóna króna styrk til að standa straum af kostnaði við meðferðarhópa mæðra og barna og veitti Sæunn Kjartansdóttir styrknum viðtöku.

Miðstöðin vinnur með meðferðarúrræði sem nefnist foreldraefling (e. Mellow Parenting) fyrir mæður ungra barna (1-5 ára) sem eiga í erfiðleikum við að sinna foreldrahlutverkinu og/eða eiga við geðheilsuvanda að stríða.

Íslensk erfðagreining stofnaði Velferðarsjóð barna árið 2000 og er frumkvöðull hér á landi hvað varðar slíkan styrktarsjóð að því er segir í tilkynningunni. Heildarupphæð styrkveitinga úr sjóðnum í ár nemur um 160 milljónum króna og hefur framlag sjóðsins aldrei verið hærra en úthlutað er úr sjóðnum 6-8 sinnum á ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×