Erlent

Buffætur böðlast á konu

Óli Tynes skrifar
Moira Cameron með félögum sínum sem sumir vildu ekki sjá konu í varðsveitinni.
Moira Cameron með félögum sínum sem sumir vildu ekki sjá konu í varðsveitinni.

Tveim af varðmönnum Turnsins í Lundúnum, Tower of London, hefur verið vikið úr starfi fyrir að áreita einu konuna sem tilheyrir varðsveitinni.

Liðsmenn sveitarinnar eru í daglegu tali kallaðir Beefeaters.

Fyrir tveim árum varð Moira Cameron fyrsta konan sem gekk til liðs við varðsveitina í eittþúsund ára sögu hennar.

Varðliðarnir í turninum eru þrjátíu og fimm talsins. Til þess að fá inngöngu í sveitina þurfa menn að hafa gegnt herþjónustu í að minnsta kosti 22 ár og hafa verið óaðfinnanlegir í starfi.

Moira Cameron sem nú er 44 ára gömul uppfyllti þessi skilyrði. Það dugði ekki sumum varðanna sem meðal annars unnu skemmdarverk á einkennisbúningi hennar og skildu eftir andstyggileg skilaboð í fataskáp hennar.

Því hefur nú verið gripið til refsiaðgerða.

Varðsveitin var stofnuð árið 1485. Talið er að nafnið Beefeaters eða kjötæturnar sé komið af því að til forna tilheyrði það hlunnindum þeirra að fá daglegan skammt af kjöti.

Meðal þess sem þeir gæta í turninum er kóróna drottningar og önnur krúnudjásn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×