Innlent

Bankarnir sýna Alþingi óvirðingu

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kvartaði undan því á Alþingi í morgun að enn hafi ekki borist svör við tveggja mánaða gamalli fyrirspurn frá henni um bifreiðahlunnindi fyrrverandi og núverandi starfsmanna bankanna. Hún sagði bankanna sýna Alþingi óvirðingu.

Eygló Harðardóttir lagði fyrirspurn fyrir fyrrverandi fjármálaráðherra um bifreiðahlunnindi starfsmanna hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum hinn 19. desember síðast liðinn. Þar spurði hún hversu margir bankastarfsmenn gömlu og nýju bankanna væru á bifreiðum frá bönkunum hinn 1. desember, sundurliðað eftir bönkum.

Þá spurði hún hversu margir fyrrverandi starfsmenn bankanna væru á slíkum bílum og hver skattaleg hlunnindi væru af þessum bílum. Þá vildi hún einnig fá að vita hver tæki ákvörðun um hver nyti bifreiðahlunninda og hvort hlunnindi sem þessi tíðkuðust í öðrum opinberum stofnunum.

Eygló sagði að einungis hefðu borist svör frá Glitni, þar sem 30 starfsmenn nytu bifreiðahlunninda. Hún sagði að ljós hafi komið að Kaupþing væri ,,á fullu" að losa sig við bílaflota bankans og að Landsbankinn hafi ekki enn svarað.

Eygló sagði að Alþingi væri sýnd óvirðing ,,Það eru algjörlega óásættanleg vinnubrögð af hendi stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins að sýna Alþingis þessa óvirðingu. Ég verð að spyrja; Hvað er svona hræðilegt í þessu máli? Hvað er verið að fela?"

Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis segist hafa gengið eftir því með formlegum hætti að fyrirspurninni yrði svarað og hann muni halda áfram að ýta á eftir svari, sem kynni að hafa dregist vegna stjórnarskiptanna.

Þá lýsti Álfheiður Ingadóttir formaður viðskiptanefndar því yfir að nefndin muni einnig taka þetta mál upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×