Innlent

Gagnrýna seðlabankafrumvarpið og verktakakaup Guðlaugs

Frjálshyggjufélagið furðar sig á þeim fljótfærnisvinnubrögðum sem minnihlutastjórn VG og Samfylkingar vill viðhafa við breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Jafnframt gagnrýnir félagið óþarfa áherslu Guðlaugs Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, í ráðgjöf utan ráðuneytisins.

Heimilin bíði eftir aðgerðum

Félagið segir að samkvæmt athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabankans sé ljóst að frumvarpið sé hroðvirknislega unnið og eingöngu ætlað til að setja af einn embættismann.

,,Sú 80 daga minnihlutastjórn sem hugðist bjarga landinu hefur eytt miklu púðri í að setja af þá embættismenn sem ekki hæfa þeirra skoðunum. Á meðan bíða heimilin í landinu eftir aðgerðum í efnahagsmálum," segir í ályktun félagsins.

Vilja skera niður í ríkisfjármálum

Frjálshyggjufélagið leggur til að minnihlutastjórnin snúi sér að brýnni verkefnum eins og að skera niður í ríkisfjármálunum, minnka álögur á skattborgara og afnema gjaldeyrishöft. Félagið fagnar félagið hugmyndum minnihlutastjórnarinnar um að leggja niður Varnarmálastofnun og hvetur ríkisstjórnina til að ganga skrefið til fulls.

Eyði ekki almannafé í eigin þágu

,,Ljóst er að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gaf ráðherrum sínum nokkuð lausan tauminn í ríkisfjármálunum og sést það best á 24 milljóna króna óþarfa eyðslu fyrrverandi heilbrigðisráðherra í ráðgjöf utan ráðuneytisins. Af því fóru 2,5 milljónir í framkomunámskeið fyrir heilbrigðisráðherra og forstöðumenn heilbrigðisstofnana," Þetta harmar Frjálshyggjufélagið og brýnir fyrir komandi ríkisstjórnum þessa lands að eyða ekki peningum skattborgara í eigin þágu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×